Jólahlaðborð Rótarýklúbbs Sauðárkróks 2022.

Sunday, November 27, 2022

Rótarýklúbbur Sauðárkróks hélt sitt hefðbundna jólahlaðborð í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki laugardaginn 26. nóvember síðastliðinn. Var þetta í áttunda skipti sem klúbburinn heldur slíkt jólaboð en reyndar féll það niður árin, 2020 og 2021 vegna covid-faraldursins. Hið fyrsta var árið 2013 og mæltist strax afar vel fyrir. Fyrirkomulag er jafnan hið sama, hefðbundinn jólamatur  á hlaðborði, hangikjöt og svínakjöt ásamt mjög fjölbreyttu meðlæti. Dúkuð borð eru sett upp með sætum fyrir um 400 manns. Stundum hafa verið skemmtiatriði, svosem tónlistarflutningur eða skemmtispjall. Öllum Skagfirðingum er boðið til þessarar veislu og koma að jafnaði 400-600 manns sem er ekki lítið í 4.300 manna samfélagi. Að þessu sinni munu gestir hafa verið talsvert á sjötta hundraði. Aðgangur er ókeypis en söfnunarkassi er við innganginn þar sem fólk getur látið eitthvað af hendi rakna eftir ástæðum. Fjölmörg fyrirtæki á Sauðárkróki, og raunar víðar, hafa einnig stutt vel við þetta jólahlaðborð, bæði með beinum fjárframlögum en einnig tilföngum með góðum afsláttum. Rótarýklúbbur Sauðárkróks vill þakka sérstaklega öllum fyrirtækjum og einstaklingum sem með einum eða öðrum hætti hafa stutt þennan viðburð og gert hann mögulegan. Það er einnig óhætt að fram komi að verðandi umdæmisstjóri og Rótarýfélagi, Ómar Bragi Stefánsson, átti upphaflega hugmyndina að þessu jólahlaðborði og hefur síðan verið ómissandi burðarás í allri skipulagningu þessa viðburðar.Hagnaði, sem oftast verður einhver af þessu jólahlaðborði, hefur síðan verið varið til ýmissa góðgerðarmála. 

Snorri og Reynir að sneiða kjötið.

Gestir á jólahlaðborði

Ómar Bragi

Knútur og Róbert.